Tvö ný ráðuneyti 1. janúar

Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytis, Ögmundur Jónasson, Jóhanna Sigurðardóttir, Guðbjartur Hannesson …
Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytis, Ögmundur Jónasson, Jóhanna Sigurðardóttir, Guðbjartur Hannesson og Anna Lilja Gunnarsdóttir ráðuneytisstjóri í velferðarráðuneyti. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Tvö ný ráðuneyti taka til starfa 1. janúar. Innanríkisráðuneytið verður til með samruna dómsmála- og mannréttindaráðuneytis annars vegar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis hins vegar. Þá munu heilbrigðisráðuneytið og félags- og tryggingamálaráðuneytið sameinast í eitt velferðarráðuneyti.

Jóhanna Sigurðardóttir kynnti sameininguna með Ögmundi Jónassyni, verðandi innanríkisráðherra, og Guðbjarti Hannessyni, verðandi velferðarráðherra, á blaðamannafundi í Þjóðmenningarhúsinu í morgun.

Ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytisins er Ragnhildur Hjaltadóttir en Anna Lilja Gunnarsdóttir er ráðuneytisstjóri velferðarráðuneytisins.

Jóhanna Sigurðardóttir kveður sameiningu ráðuneyta fyrst og fremst til þess gerða að einfalda stjórnsýsluna. „Við erum að gera hana skilvirkari, við erum að opna ný tækifæri til þess að hagræða betur innan stjórnsýslunnar. Gera hana ódýrari en um leið að bæta þjónustuna. Eins og í heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytunum hafa verið verkefni í gegnum tíðina, ekki síst í málefnum aldraðra, sem hefur verið sparað í verulega en þó komið niður á þjónustunni og gert hana dýrari og verri. Nú er það allt úr sögunni.“

Þá segir Jóhanna næsta mál á dagskrá vera að koma á fót atvinnuvegaráðuneyti. „Þetta er það sem var stefnt að með þessu stjórnarsamstarfi. Það er að fara í miklar hagræðingar og einföldun í öllu stjórnkerfinu. Ekki bara í fækkun ráðuneyta sem nú verða tíu um áramótin. Nú er stefnt að því að þau verði níu þegar yfir lýkur með stofnun atvinnuvegaráðuneytis. Þá verður umhverfisráðuneytið styrkt og gert að umhverfis og auðlindaráðuneyti,“ segir Jóhanna sem telur brýnt að stofna nýtt ráðuneyti sem allra fyrst.

„Það er núna bara í vinnslu. Það verður vonandi sem fyrst. Það eru ekki komnar neinar dagsetningar á það en það verður vonandi sem allra fyrst. Þetta er næst á dagskrá.“

Á blaðamannafundinum kvaðst Ögmundur Jónasson stefna að hagræðingu í starfsmannaveltu. Hann lagði þó áherslu á að enginn starfsmaður missi vinnuna við sameiningu ráðuneyta.

 „Ég legg mest upp úr því að nýta starfskraftana á eins markvissan hátt og kostur er. Ég held að það sé gott fyrir stjórnsýsluna að ganga í gegnum umbreytingarskeið. Það kallar á nýja hugsun og markmiðið er að sjálfsögðu að nýta kraftana betur en við höfum gert. Ég hef tekið fram að það hefur verið ánægjulegt að kynnst því besta í íslenskri stjórnsýslu sem er mjög gott,“ sagði Ögmundur í samtali við Morgunblaðið.

„Það eru engin kerfi svo góð að ekki megi bæta þau. Á tímum sjálfsgagnrýni megum við þó ekki gleyma því sem vel hefur verið gert. Tilkostnaðurinn í ráðuneytunum er brotabrot af tilkostnaðinum við þessa stóru málaflokka. Ég held að með þessum breytingum sem við gerum núna þá komum við til með að nýta þessi kerfi betur en verið hefur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert