Verður undir eftirliti í nótt

Loka þurfti Holtavörðuheiði um tíma vegna slyssins.
Loka þurfti Holtavörðuheiði um tíma vegna slyssins. mbl.is/Sigurður Ægisson

Maðurinn sem fluttur var með TF-LIF, þyrlu Landhelgisgæslunnar, til aðhlynningar á Landspítalann eftir umferðarslys á Holtavörðuheiði á níunda tímanum í gærkvöldi er ekki alvarlega slasaður, að sögn vakthafandi læknis. Hann verður þó undir eftirliti yfir nótt á slysadeild.

Maðurinn var á leiðinni suður í fólksbíl þegar hann lenti í árekstri við flutningabíl sem var á leiðinni norður, að sögn lögreglunnar í Borgarnesi. Fólksbifreiðin skemmdist mikið en vöruflutningabíllinn minna og ökumaður hans slapp ómeiddur.

Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni barst  beiðni um þyrlu í gegnum Neyðarlínuna klukkan   20:27 í kvöld. TF-LÍF var þá að koma inn til lendingar úr öðru verkefni og fór þyrlan í loftið á ný klukkan 20:50 og lenti á veginum rétt við slysstað kl. 21:21. Rúmum tíu mínútum síðar lagði þyrlan af stað til Reykjavíkur og lenti við Landspítalann í Fossvogi kl. 22:02.  

Að sögn læknis á slysa- og bráðadeild Landspítala fór maðurinn sem er á fertugsaldri í rannsóknir og myndatöku í gærkvöldi. Hann virðist hafa sloppið vel miðað við aðstæður, og lýsingar lögreglunnar á Borgarnesi.

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert