Alsæl og þakklát þjóðinni

Flugeldamörkuðum björgunarsveita var flestum lokað klukkan 16 síðdegis og rokgekk salan alveg fram að lokun. „Það breytist ekkert, ég var að koma sjálfur af sölustað og það voru margir þarna á síðustu stundu," segir Kristinn Ólafsson framkvæmdastjóri Slysavarnarfélagsins Landsbjargar glettinn.

Salan hefur gengið vel í ár og var með svipuðu móti og í fyrra, en um 50% sölunnar er yfirleitt á Gamlársdag og yfirleitt er mest að gera síðdegis á milli 13 og 16.  „Þetta stóðst allar væntingar og við erum alsæl með árangurinn," segir Kristinn. Björgunarsveitirnar voru áberandi í ár sem áður fyrr enda komu upp mörg stór verkefni, meðal annars tengd eldgosinu í Eyjafjallajökli. Flugeldasalan er mikilvægasta einstaka fjáröflun flestra björgunarsveita landsins og í sumum tilfellum stendur flugeldasalan undir nær öllum rekstri einstakra björgunarsveita. 

Kristinn segir björgunarsveitarfólk verða vart við mikla velvild almennings á meðan flugeldasölunni stendur. „Við göngum mjög sátt frá þessu og erum afar þakklát þjóðinni fyrir að standa með okkur í þessu, það er ekki sjálfsagður hlutur. En við stöndum og föllum með þessu og það er alveg ljóst að nú erum við tilbúin að takast á við komandi verkefni á nýju ári."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert