Átta höfðu látist vegna umferðarslysa á þessu ári um miðjan dag í gær. Fara þarf aftur til ársins 1968 þegar hægri umferð var tekin upp til að finna jafnfá fórnarlömb umferðarslysa á einu ári og þau voru orðin í gær.
Einar Magnús Magnússon, upplýsingafulltrúi Umferðarstofu, sagði að sex hefðu farist í umferðinni fyrstu ellefu mánuði ársins. Í byrjun desember þurfti að fara allt aftur til ársins 1946 til að finna ár sem jafnfáir höfðu látist í umferðinni, að því er fram kemur í umfjöllun um umferðarmálin í Morgunblaðinu í dag.
Umferðinni þá og nú er ekki saman að jafna hvað varðar bílafjölda eða lengd vegakerfisins. Ekki fannst í fljótu bragði hvað skrásett ökutæki voru mörg árið 1946. Árið 1950 voru þau 10.716 talsins en 238.149 í fyrra, samkvæmt tölum Hagstofu.