Flugeldasala björgunarsveitanna hefur farið vel af stað. Að sögn Kristins Ólafssonar, framkvæmdastjóra Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, lítur út fyrir að salan verði svipuð því sem var í fyrra, en þá var afar gott ár í flugeldasölu.
„Þetta lítur allt ljómandi vel út, veðurspáin er góð og við finnum fyrir mikilli velvild almennings gagnvart björgunarsveitunum. Við vorum í nokkrum stórum verkefnum í ár og við finnum vel fyrir því að fólk kann að meta okkar störf. Það verður aldrei of oft sagt að björgunarsveitirnar eru sameign okkar allra, án stuðnings almennings gætu þær ekki starfað,“ segir Kristinn.
Sölustaðir Landsbjargar loka klukkan fjögur í dag. Kristinn segir að um 50% sölunnar sé á Gamlársdag og yfirleitt er mest að gera á milli klukkan eitt og fjögur.
Fjöldi manns kemur að flugeldasölunni. „Ég held að það séu á bilinu 3000 - 4000 manns sem koma að þessu á einn eða annan hátt. Allir þeir, sem eru á útkallsskrá sinna einhverjum verkefnum tengdum flugeldasölunni,“ segir Kristinn.
Skipulagningin krefst mikillar vinnu og Kristinn segir að um leið og sölustöðum verði lokað í ár, verði farið að huga að næsta ári. „Við förum til Kína í janúar til að undirbúa kaup næsta árs.“
Sölustaðir Landsbjargar eru um 80 talsins víða um land.