„Ég held að þjóðin sé að biðja um að við hættum þessu karpi," sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, í Kryddsíld Stöðvar 2.
Kristján Már Unnarsson, fréttastjóri, sem stýrði umræðum, hafði spurt Jóhönnu hvort ekki þyrfti að bæta orðræðuna í opinberri umræðu, bæði í stjórnmálum og á netinu.
Jóhanna sagði, að stjórnmálaflokkarnir þyrftu að breyta vinnubrögðum og unnið hefði verið að því í þinginu og stjórnarráðinu. Þá hefði orðið breyting innan stjórnmálanna og samvinna hefði aukist eins og m.a. hefði sést í Icesave-málinu.
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, gaf lítið fyrir tal um umbætur í stjórnkerfinu og sagði að þær væru aðeins andlitslyfting; raunverulegar lýðræðisumbætur skorti. Sagði hann að Jóhanna og Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, hefðu verið samanlagt í 60 ár á þingi og það þyrfti að koma inn nýtt fólk.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks sagði, að á síðasta ári hefði verið hávær krafa um að orðræðan yrði skárri árið 2010. Hún hefði hins vegar lítið breyst og enn væri verið að glíma við sömu vandamálin og á því ári.