Hvetja til samstöðu á nýju ári

Oddvitar ríkisstjórnarinnar, Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra
Oddvitar ríkisstjórnarinnar, Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra mbl.is/Ernir

Leiðtogar ríkisstjórnarinnar leggja í áramótagreinum í Morgunblaðinu í dag áherslu á þjóðin standi saman á nýju ári og einbeiti sér að því að byggja upp eftir efnahagshrunið. 

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, segir að á nýju ári verði mótuð atvinnustefnu til framtíðar, sem byggist á traustum grunni og stuðli að nýjum atvinnutækifærum og fjölgun starfa. Það verður eitt af stærstu verkefnum næsta árs sem þegar hafi verið lagður grunnur að.

„Á nýju ári eigum við Íslendingar að setja bjartsýni, áræði, samhug og samstöðu í öndvegi í öllum okkar athöfnum. Við skulum leysa úr læðingi þann mikla samtakamátt sem í þjóðinni býr og beina honum í jákvæðan farveg uppbyggingar, framkvæmda og nýsköpunar," skrifar Jóhanna.

Fram kemur í grein Jóhönnu, að hún hafi hugleitt að verða ekki við beiðni um að skrifa áramótagrein í Morgunblaðið vegna skrifa núverandi ritstjóra blaðsins um hana. Segir Jóhanna að skrifin séu rætin og lágkúruleg og eigi vart hliðstæðu í síðari tíma blaðasögu.   

Glímunni hvergi nærri lokið

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, segir í sinni grein að Íslendingar séu á réttri leið en glímunni sé hvergi nærri lokið.

„Auðnist okkur að vinna áfram í sæmilegum friði að hinu gríðarlega mikilvæga verkefni, endurreisn landsins, þá eru okkur allir vegir færir, Íslendingum. Góður vinnufriður og stöðugleiki, í efnahagsmálum, á vinnumarkaði og í stjórnmálum, er okkur áfram lífsnauðsynlegur. Næg er óvissan samt, ekki síst bundin ytri skilyrðum, svo sem þróun mála á okkar mikilvægustu mörkuðum í Evrópu, þó að okkur auðnist að halda vel á okkar spilum. Það er í okkar höndum að gera árið 2011 að góðu ári, ári mikils umsnúnings til hins betra," segir Steingrímur m.a. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert