Mörg met voru sett í Gamlárshlaupi ÍR, sem fór fram í miðborg Reykjavíkur í dag. Kári Steinn Karlsson úr Breiðablik sigraði í hlaupinu á 30:46 mínútum sem er nýtt brautarmet þótt hann yrði fyrir því að hrasa og detta í hálku á leiðinni. 1167 manns tóku þátt í hlaupinu sem er nýtt met.
„Við erum gríðarlega ánægð," sagði Sigurður Þórarinsson, hlaupastjóri. Hann sagði að það eina sem hefði skyggt á væri, að nokkuð hált var í brautinni en það kólnaði skyndilega í veðri í þann mund sem hlaupið var að hefjast.
Sigurður sagði, að áhugi á almenningshlaupum færi ört vaxandi, bæði hér á landi og í útlöndum. Gamlárshlaupið skipaði einnig sérstakan sess vegna þess á hvaða degi það færi fram. Þannig mættu margir í óvenjulegum búningum en veitt eru sérstök verðlaun fyrir frumlegustu búningana. Í ár fékk hlaupahópur sem keppti í gervi Línu langsokks, og maður sem kom klæddur sem Jesú, verðlaun.
Stefán Guðmundsson. Breiðabliki varð í 2. sæti á 32:39 mín og Ragnar Guðmundsson úr Ægi varð í 3. sæti
á 34:05 mín. Í kvennaflokki varð Arndís Ýr Hafþórsdóttir Fjölni í 1.
sæti á 37:20 mín en hún varð 21. allra í mark. Íris Anna Skúladóttir einnig úr
Fjölni varð 2. á 38:08 mín og Birna Varðardóttir 3. á 39:45 mín.