Þórður Guðnason björgunarsveitarmaður er maður ársins að mati hlustenda Rásar 2. Þórður hlaut yfirburðarkosningu en hann var einnig kjörinn hetja ársins af DV og maður ársins af hlustendum Bylgjunnar. Þórður vann mikið björgunarafrek á árinu þegar hann seig niður í sprungu á Langjökli og bjargaði þaðan 7 ára dreng.
Mikil þátttaka var í kosningunni á Rás 2. Í öðru sæti á eftir Þórði var Lilja Mósesdóttir þingmaður Vinstri grænna og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra í þriðja sæti. Fjórða sætið hreppti Gunnar Nelson, bardagakappi, en fimmta sætið hreppti Þorbjörg Elín Friðriksdóttir sem tók sig til á árinu og safnaði fjármunum til kaupa á ytri öndunarvél sem hún gaf HSS ásamt vökvadælu og tveimur hjólastólum.
Þórður vann kosninguna hinsvegar með yfirburðum. Hann er í undanfarahóp Björgunarfélags Akraness og var í fyrsta bíl sem kallaður var á staðinn þegar drengurinn og móðir hans féllu niður í 30 metra djúpa sprunguna. Ekki tókst að bjarga móðurinni.
Þórður sagði í viðtali á Rás 2 að markmiðið hafi verið skýrt í hans huga, að fara niður og sækja fólkið. Hik hafi ekki komið til greina. 6 mánuðum áður tók hann þátt í svipaðri aðgerð þar sem enga stund tók að síga niður og bjarga fólkinu en atvikið á Langjökli tók mikið á þar sem Þórður hékk á hvolfi í yfir klukkutíma við afar erfiðar aðstæður.