Segir Össur sýna VG fyrirlitningu

Lilja Mósesdóttur
Lilja Mósesdóttur mbl.is

Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstri grænna, segir ekki hægt að sýna samstarfsflokki sínum meiri fyrirlitningu en að nota dýralíkingarmál um þingmann flokksins. Vísar Lilja þar til ummæla utanríkisráðherra um hana að loknum ríkisráðsfundi í gær.

„Það er alveg orðið ljóst í mínum huga hver heitasta ósk Samfylkingarinnar er. Það er hins vegar ekki hægt að sýna samstarfsflokki sínum meiri fyrirlitningu en að lýsa skoðunum sínum á einstökum þingmönnum hans með slíkum yfirlýsingum og með því að nota dýralíkingarmál. Það kemur á óvart að ráðherrar séu á þessu plani en maður lærir svo lengi sem maður lifir," skrifar Lilja á Facebooksíðu sína í kvöld.

Þar er hún að vísa í viðtal dv.is við Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra í gær.

Um stöðu Lilju Mósesdóttur sagði Össur þetta: ,,Í öllum góðum stóðum eru burðugar hryssur með strok í genum og sjálfstæðan vilja. Hún er öflugur þingmaður en ræður sínum næturstað. Það mun ekki hafa áhrif á stöðu ríkisstjórnarinnar, jafnvel þó folaldið fylgi," segir Össur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka