Biskup fjallar um reiðina í þjóðlífinu

Karl Sigurbjörnsson, biskup.
Karl Sigurbjörnsson, biskup. mbl.is/Ómar

Það er stórháskalegt ef hreyfiaflið andspænis áföllum þjóðlífsins verður hin óhelga þrenning: reiði, hatur og hefnigirni, sagði Karl Sigurbjörnsson, biskup í nýárspredikun sinni í Dómkirkjunni í gær.

„Svo margt ber því miður vott um það og það hve andi tortryggni, vantrausts og virðingarleysis sækir að. Það er ógnvænlegt, því verði sá andi ofan á þá er allt tapað."

Á árinu sem leið vorum við óþyrmilega minnt á varnaleysi okkar gagnvart ógnarkröftum náttúrunnar. Sú vitneskja ætti að vera okkur Íslendingum í blóð borin, vera órofa þáttur í grunnsögu okkar og sjálfsmynd, sagði biskup í predikun í gær.

„ Sú þekking er ekki aðeins landafræði og jarðvísindi. Hin kristna saga sem mótað hefur uppeldi og menningu genginna kynslóða er sagan um það hvernig við sjáum okkur sem einstaklingar og þjóð í átökum náttúruaflanna í þessu landi, á bandi lífsins í baráttunni við eyðingaröflin, ógn og hel. Hún játar og áminnir að þrátt fyrir alla ógn og vá er annað afl, sem undirtökin hefur í tilverunni. Þrátt fyrir sortamyrkur og öskukóf þá er ljós í þessum heimi, ljóssins og lífsins máttur að verki. Sá máttur birtist ekki síst þegar umhyggjan kemst að og ræður för, kærleikur, von og trú.

Það sem mestu varðar er ávallt innri styrkur, skapgerð, vilji, lífsstefna, hvaða anda manneskjan lýtur og fylgir," sagði biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson.

Nýárspredikunin í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka