Maður sem lenti í vinnuslysi fær aðeins um þriðjung þeirra bóta sem honum voru ætlaðar. Tryggingarfyrirtækið tekur afganginn og segir ástæðuna fyrir því þá að fyrirtækið sem maðurinn vann hjá hafi verið í vanskilum við tryggingafyrirtækið. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.
Í
apríl árið 2009 lenti Jóhann Ingi Ármannsson í vinnuslysi þegar hann
var við störf hjá BM-Vallá. Við slysið missti Jóhann framan af
baugfingri hægri handar auk þess sem hann hefur takmarkað grip eftir
slysið og stöðug eymsli, sérstaklega í kulda.
BM-Vallá var með
starfsmenn sína tryggða hjá Sjóvá og var metið að Jóhann ætti að fá
greiddar tvær milljónir og sjöhundruð þúsund í bætur vegna slyssins.
En þessir peningar skiluðu sér ekki allir til Jóhanns.
„Tryggingarnar
tóku 14 hundruð þúsund krónur af bótunum upp í vangoldin gjöld hjá
Sjóvá. Það lítur út fyrir mér að BM-Vallá hafi ekki staðið við sínar
greiðslur til Sjóvá," segir Jóhann Ingi, í viðtali við Stöð 2.
Þau svör fengust hjá
Sjóvá að heimild væri fyrir vátryggingafélög að taka af bótum fólks
vegna vangoldinna iðgjalda þess fyrirtækis sem það starfar hjá. Í
samtali Stöðvar 2 við lögmann Sjóvár kom þó fram að þessi heimild væri
sjaldan beitt enda væri nokkuð kaldranalegt að ganga á bætur fólks vegna
vanskila þess fyrirtækis sem það vann fyrir. Ekki væri útséð með að
Jóhann þyrfti að sitja uppi með allan skaðann þar sem hann á
forgangskröfu í þrotabú BM Vallár.