Sundferðin kostar nú 450 krónur

Búið er að hækka gjaldskrá sundstaða í Reykjavík og kostar nú 450 krónur fyrir fullorðinn einstakling að fara í sund í stað 360 króna fyrir áramót. Er þetta ein fjölmargra verðskrárhækkana á vegum Reykjavíkurborgar um þessi áramót. 

Stakt gjald fyrir börn í sund lækkar hins vegar í 100 krónur.  Hingað til hafa eldri borgarar 67 ára og eldri fengið ókeypis í sund en nú verða þeir að bíða eftir sjötíu ára afmælinu til þess að fara ókeypis í sund.  Rafræn kort sem hafa þegar verið gefin út á 67 ára og eldri á árinu 2010 gilda áfram, segir á vef Reykjavíkurborgar.

Þá hefur reglum varðandi aldurstakmarkanir án fylgdarmanns í sund verið breytt og mega börn sem fædd eru árið 2001 og fyrr fara í sund án fylgdarmanns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert