Væntanlega lögbrot hjá Reykjavíkurborg

mbl.is/Ernir

Kærunefnd útboðsmála hefur fallist á kröfu Urðar og grjóts ehf. um að stöðva gerð samnings milli Reykjavíkurborgar og Hlaðbæjar Colas um vetrarþjónustu gatna. Urð og grjót átti lægsta tilboðið. Borgin taldi að fyrirtækið væri í vanskilum en í ljós kom að fyrirtækið skuldaði engin opinber gjöld. Því er væntanlega um brot á lögum um opinber innkaup að ræða hjá Reykjavíkurborg. 

Um er að ræða útboð á vetrarþjónustu gatna í Reykjavík 2010-2013. Tilboð voru opnuð 5. október sl. og bárust fimm tilboð. Urð og grjót átti næst lægsta tilboðið. Farið var fram á að tilboðsgjafar skiluðu inn upplýsingum um fjárhagslegt hæfi sitt. Urð og grjót lagði fram yfirlýsingu frá ríkisskattstjóra sem að hans mati staðfesti inneign hans hjá embættinu.

Á fundi innkauparáðs Reykjavíkurborgar þann 27. október 2010 var samþykkt að taka tilboði Hlaðbæjar Colas hf. sem átti þriðja lægsta tilboðið í verkið.

Var Urði og grjóti tilkynnt sama dag með bréfi, að tilboði fyrirtækisins hafi verið vísað frá  á þeim forsendum að tilboðið uppfyllti ekki skilyrði um skil á opinberum gjöldum.

Í kæru til kærunefndar útboðsmála greinir Urð og grjót frá því að álögð opinber gjöld vegna gjaldársins 2009 hafi verið 4.321.643 krónur. Hins vegar nam inneign félagsins vegna fyrirframgreiðslu opinberra gjalda fyrir sama tímabil 12.881.896 krónum. Urð og grjót telur sig því eiga ríflega inneign hjá hinu opinbera og sé langt frá því að vera í vanskilum.

Umrædd opinber gjöld skuldajafnast samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Sú skuldajöfnun fór fram þann 29. október 2010 þegar ríkissjóður endurgreiddi fyrirtækinu 9.451.566 krónur. Staðfesting frá tollstjóranum í Reykjavík um að Urð og grjót sé í skilum með önnur gjöld liggur einnig fyrir.

Segir í niðurstöðu kærunefndar að allt bendi til þess að Reykjavíkurborg hafi brotið lög um opinber útboð með því að vísa tilboði Urðar og grjóts frá þar sem ljóst sé að fyrirtækið er ekki í vanskilum. Því verði umrætt innkaupaferli stöðvað þar til endanlega hefur verið skorið úr öllum kröfum fyrirtækisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert