Breytingar á gjaldþrotalögum hefur tekið gildi en samkvæmt þeim fyrnast kröfur sem skuldari ber ábyrgð á eftir lok gjaldþrotaskipta á tveimur árum.
Samkvæmt eldri lögum gat fyrningarfrestur verið fjögur, tíu eða tuttugu ár eftir því um hvaða kröfu er að ræða. Unnt var að rjúfa fyrninguna á þessu tímabili og þannig viðhalda kröfunni um aldur og ævi.
Samkvæmt nýju lögunum er meginreglan sú að hægt er að viðhalda kröfum í tvö ár frá gjaldþrotaskiptum. Hins vegar getur lánardrottinn höfðað mál á hendur skuldara og fengið dóm þar sem fyrningarslit á kröfu hans eru viðurkennd. Þá hefst nýr fyrningarfrestur sem samkvæmt almennum reglum getur verið fjögur, tíu eða tuttugu ár, allt eftir tegund kröfunnar. Til að fyrningarslit fáist viðurkennd með dómi þarf lánardrottinn að sýna fram á að hann hafi sérstaka hagsmuni af því að fyrningunni verði slitið sem og að líklegt sé að unnt verði að fá greiðslu krafna á nýjum fyrningartíma.
Breytingarnar taka til allra krafna sem ekki hafa fengist greiddar við gjaldþrotaskipti. Þær eiga einnig við þau tilvik þar sem skiptum lauk fyrir gildistöku breytinga á gjaldþrotalögum eða þar sem skipti hófust í tíð eldri laga og lýkur eftir gildistöku þessara laga.
Hafi skiptum lokið fyrir gildistöku þessara laga fyrnast þær kröfur, sem ekki eru þegar fyrndar, á tveimur árum frá gildistöku laganna, eða 29. desember 2012, nema skemmri tími sé eftir af fyrningarfresti þeirra. Fyrningu slíkra krafna verður einungis slitið með dómi.