„Rétt fyrir lendingu kom flugstjórinn í kallkerfið og sagði að það væri viðvörunarljós um reyk í farangursrými. Hann taldi ólíklegt að þetta væri raunveruleg hætta en vildi þó samt vera við öllu búinn,“ segir Arnór G. Jónsson, einn farþega í vél Flugfélags Íslands, sem lenti í Bergen í kvöld.
„Flugstjórinn reyndi að fullvissa farþeganna um að líklega væri þetta fölsk aðvörun, eins og kom í ljós síðar meir. Það var greinilega búið að tilkynna þetta í flugturninn og okkar biðu blikkandi ljós og brunaliðsmenn þegar við lentum.“
- Skynjaðirðu hræðslu í vélinni?
„Nei. Ég gerði það nú ekki - ekki beinlínis. Ég og kona mín vorum með fjögur börn með okkur og höfðum í sjálfu sér ekki miklar áhyggjur af þessu. Við vorum komin yfir land og sáum borgina. Þannig að við vorum ekki út í buskanum ef eitthvað kæmi fyrir.“
Arnór rekur viðvörunarmerkið til úrkomu á flugvellinum í Egilsstöðum.
„Mín kenning er sú að þetta megi rekja til millilendingar á Egilsstöðum þar sem við þurftum að millilenda út af vopnaleit. Þá þurftum við að fara út úr flugvélinni með allt okkar hafurtask í grenjandi rigningu og inn í vélina aftur. Við þetta blotnaði allur farangur en flugstjórinn sagði að líklega væri þetta út af raka í farangursrými.“
Arnór er búsettur í Bergen ásamt konu sinni Söru Ögmundsdóttur og fjórum börnum. Sjálfur er hann í meistaranámi við háskóla borgarinnar.