Talið er að um 3.500 erlendir ferðamenn hafi varið áramótunum hér á landi. Stígandi hefur verið í áramótaferðum erlendra ferðamanna hingað til lands síðustu ár.
Að sögn Ernu Hauksdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar, eru þetta heldur fleiri ferðamenn en voru hér á sama tíma í fyrra. „Það er búið að vera stígandi í þessu síðustu árin en það er ekkert langt síðan þeir voru mjög fáir. Þeim þykir mjög áhugavert að keyra á milli brenna og horfa á flugeldana.“
Flestir dvelja í landinu í nokkra daga og skilja því eftir töluverðar gjaldeyristekjur hér að hennar sögn. „Það er mikið í boði fyrir erlenda ferðamenn og þeir nýta sér það vel. T.d. hefur hátt hlutfall þeirra farið í dagsferðir en boðið er upp á þær daglega alla dagana yfir jól og áramót frá Reykjavík, sama hvaða dagur það er.“