Stefnt er að því að ljúka fjármögnun innan þriggja mánaða á kaplaverksmiðju sem rísa mun á Seyðisfirði. Þetta segir Ólafur H. Sigurðsson, bæjarstjóri Seyðisfjarðar, í samtali við Morgunblaðið í dag.
Unnið hefur verið að því að koma á koppinn kaplaverksmiðju á Seyðisfirði um þriggja ára skeið. „Fyrir jól var gert tilboð í verksmiðju sem er í Noregi. Við reiknum ekki með öðru en að því verði tekið. Um er að ræða 50 ára gamalt fyrirtæki í öflugum rekstri,“ segir Ólafur við Morgunblaðið.
Að hans sögn nemur fjárfestingin um 1,2 milljörðum króna, en fyrirhugað er að þar af verði 800 milljónir í formi hlutafjár. Engrar fjárhagslegrar ríkisaðstoðar mun njóta við í verkefninu, sem leitt hefur verið af Þróunarfélagi Austurlands og fyrirtækinu Álköplum.