Heimild til taka út lífeyrissparnað hækkar

Núna getur fólk tekið út 250 þúsund á mánuði af …
Núna getur fólk tekið út 250 þúsund á mánuði af viðbótarsparnaðarreikningum. Ef hjón taka bæði út sparnaðinn getur upphæðin orðið 500 þúsund á mánuði. hag / Haraldur Guðjónsson

Heimild til fyrirframgreiðslu viðbótarlífeyrissparnaðar hækkaði um áramótin úr 2,5 milljónum í 5 milljónir. Breytingin þýðir að fólk getur tekið út 250 þúsund krónur á mánuði af séreignarsparnaði eftir að tekjuskattur og útsvar hafa verið dregin frá, en þessi upphæð var rúmlega 100 þúsund á mánuði.

Meginregla laga er að séreignarsparnaður er ekki greiddur fyrr en fólk verður 60 ára, en eftir hrun var sett inn tímabundið ákvæði í lög sem heimilaði fólki að taka út séreignarsparnað óháð aldri. Þessi heimild var sett inn í lög til að fólk sem ætti í fjárhagserfiðleikum gæti bætt stöðu sína. Frá því að heimildin var veitt hafa um 50 þúsund manns tekið út séreignarsparnað, samtals um 43 milljarða króna.

Meðaleign þeirra sem safna inn á séreignarsparnaðarreikninga er um þrjár milljónir króna. Það gefur því augaleið að margir sem hafa verið að taka út sparnaðinn eru að verða búnir með það sem þeir höfðu safnað. Margir eiga þó ennþá talsvert mikið inn á þessum reikningum, en samkvæmt tölum Fjármálaeftirlitsins voru um 288 milljarðar til í séreignarsparnaði í ársbyrjun 2010.

Hafi sjóðfélagar áður fengið greiðslu samkvæmt eldri heimild dregst sú fjárhæð frá þeirri 5 milljón króna heimild sem lögin kveða á um. Þeir sem þegar hafa sótt um útgreiðslu séreignarsparnaðar samkvæmt eldri heimild en vilja gera breytingar í samræmi við nýju heimildina þurfa að sækja sérstaklega um það með nýrri umsókn.

Samkvæmt lögunum þurfa þeir sem vilja nýta sér þessa heimild að sækja um fyrir 31. mars 2011.

Á heimasíðu Arion banka segir að bankinn muni byrja að taka við umsóknum 5. janúar og stefnt sé að því að afgreiða umsóknir til útgreiðslu þann 20. janúar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert