Tilbúnar til að skoða matarkort

Biðröð hjá Fjölskylduhjápinni.
Biðröð hjá Fjölskylduhjápinni. Ernir Eyjólfsson

Ragnhildur Guðmundsdóttir, formaður Mæðrastyrksnefndar, segir að hún sé tilbúin til að skoða kosti þess að taka upp matarkort við úthlutun matargjafa til fátæks fólks sem óskar eftir aðstoð.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, gerði biðröð eftir matarúthlutun að umfjöllunarefni í nýársávarpi sínu: „Samfélag sem kennir sig við norræna velferð getur ekki liðið að vikulega standi þúsundir í biðröðum eftir mat. Við skulum sameinast um að afmá þennan smánarblett strax á næstu mánuðum.“

Ragnhildur sagði að ein leið til að útrýma biðröðum væri að taka upp matarkort sem fólk getur notað í verslunum. „Við teljum hjá Mæðrastyrksnefnd að við þurfum að fá góðar upplýsingar um matarkortin, kosti þeirra og galla. Við þurfum að skoða hvernig á að vinna þetta. Við teljum að sú umræða þurfi að fara fram áður en við tökum nokkrar ákvarðanir um breytingar. En við erum að sjálfsögðu tilbúnar til að ræða tillögur og hugmyndir sem eru til bóta.“

Ragnhildur sagði að Mæðrastyrksnefnd væri núna að ganga frá eftir aðstoðina um jólin, en síðan yrði opnað aftur fyrir úthlutun seinna í janúar.

Ragnhildur sagði að ef það ætti að taka upp matarkort við matarúthlutun þyrftu fleiri að koma að málinu, m.a. stjórnvöld, sveitarfélögin og ekki síst verslunin.

Ragnhildur G. Guðmundsdóttir, formaður Mæðrastyrksnefndar.
Ragnhildur G. Guðmundsdóttir, formaður Mæðrastyrksnefndar. Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert