Umhverfisnefnd Alþingis mun funda um málefni sorpbrennslustöðvarinnar Funa í Engidal í Ísafjarðarbæ á föstudaginn kemur. Fundurinn er haldinn að ósk Ólínu Þorvarðardóttur alþingismanns.
Óskað hefur verið eftir því að bæjarstjórinn á Ísafirði, ráðuneytisstjórinn í umhverfisráðuneytinu og fulltrúar frá hollustuverndarsviði Umhverfisstofnunar, Matvælastofnun, heilbrigðiseftirlitinu á Ísafirði og Sambandi íslenskra sveitarfélaga mæti á fundinn.
Sem kunnugt er mældist magn díoxíðs, sem er þrávirkt efni, tuttugufalt yfir viðmiðunarmörkum í nágrenni sorpbrennslustöðvarinnar þegar árið 2007. Niðurstaða mælingarinnar var ekki kynnt íbúum á Ísafirði og var Funi starfræktur þar til nú fyrir skömmu.
Málið komst í hámæli nýlega þegar díoxíðmengun mældist í mjólk úr kúm í Engidal. Ólína segir í bréfi til Marðar Árnasonar, formanns umhverfisnefndar, að upp hafi komið heilsufarsvandamál hjá ábúendum sem veki ugg um afleiðingar mengunarinnar fyrir aðra íbúa Ísafjarðarbæjar, einkum í Engidal og Holtahverfi.
„Þá vakna áleitnar spurningar um það hverng háttað sé reglubundnu mengunareftirliti og upplýsingaskyldu við almenning, því það var Mjólkursamsalan sem uppgötvaði eitrunina í kúnum í Engidal, en ekki heilbrigðiseftirlitið,“ skrifar Ólína. Hún kveðst af þessu tilefni óska eftir fundi í umhverfisnefnd Alþingis.