Lögreglan á Hvolsvelli ítrekar að það sé ekkert ferðaveður undir Eyjafjöllum og í Mýrdalnum. Mikið rok sé á svæðinu og hvassar vindhviður. Þá sé sandfok mikið í kringum Svaðbælisá og því hætta á skemmdum á ökutækjum sem fari þar um.
Þá mælist lögreglan til að fólk sé ekki á ferðinni á þessum slóðum að þarflausu. Það er jafnframt hvatt til þess að fylgjast með vef vegagerðarinnar og veðurfréttum í útvarpi. Þá segir að veður eigi að lægja seinni partinn í dag eða með kvöldinu.
Að sögn Vegagerðarinnar er varað við óveðri á Kjalarnesi. Hálkublettir eru á Holtavörðuheiði og Bröttubrekku en annars eru vegir auðir á Vesturlandi.
Á Vestfjörðum eru vegir víðast auðir, þó eru hálkublettir á Steingrímsfjarðarheiði og Hrafnseyrarheiði er ófær vegna flughálku.
Á Norðurlandi vestra er víða hálka eða hálkublettir og skafrenningur. Hins vegar er mikil ofankoma við Eyjafjörð, snjóþekja og hálka á vegum. Í Þingeyjasýslum er nær allsstaðar nokkur hálka eða snjóþekja og víða skafrenningur eða él. Hólasandur er ófær.
Á Austurlandi er vetrarfærð og víða mjög slæmt veður. Stórhríð er á Vopnafjarðarheiði, Fjarðarheiði og Fagradal. Fjarðarheiði er þungfær en ófært er á Vatnsskarði eystra, Breiðdalsheiði og Öxi.
Veður hefur heldur gengið niður með suðausturströndinni. Þó er enn varað við óveðri í Öræfum og vestur fyrir Vík. Þar eru einnig hálkublettir.