Jólatréð iðaði af lífi

Asparglytta. Myndin er af vef Náttúrufræðistofnunar.
Asparglytta. Myndin er af vef Náttúrufræðistofnunar.

Íbúi í Hafnarfirði kom með væna grein af jólatrénu sínu til Náttúrufræðistofnunar en tréð hafði reynst líflegra en við var búist.  Fram kemur á vef stofnunarinnar, að tréð, sem maðurinn hafði keypt í ræktunarreit í Mosfellsbæ, tók að iða af lífi þegar það var komið á sinn stað inni í stofu.

Hafði asparglyttan alræmda fylgt trénu, en Náttúrufræðistofnun segir, að hún sé annálaður skaðvaldur á öspum og víðitegundum ýmiskonar. Hátt í hundrað bjöllur duttu af trénu þegar eitri var úðað á það.

Asparglytta er nýlegur landnemi og afar efnilegur skaðvaldur á trjám og runnum í görðum. Hún er nú orðin einkar fjölliðuð í Mosfellsbæ, í nágrenni meintra upptaka tegundarinnar hér á landi, og eykur hún útbreiðslu sína inn í höfuðborgina jafnt og þétt með hverju árinu.

Á haustin koma fullorðnar asparglyttur sér fyrir til vetrardvalar, gjarnan í sprungum í trjáberki og undir lausum berki. Segir á vef Náttúrufræðistofnunar, að dæmið úr Hafnarfirði gefi til kynna að grenitré veiti glyttunum ákjósanleg vetrarskjól. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert