Áfrýjunarnefnd neytendamála hefur staðfest þá niðurstöðu Neytendastofu, að eignaleigan Lýsing beri ábyrgð á því, að félagið hafi fyrir mistök ekki greint frá því á bílasamningum, að íslenskur hluti bílalána væri verðtryggður.
Áfrýjunarnefndin staðfesti þá niðurstöðu Neytendastofu, að samningsskilmálar á bílasamningi hjá Lýsingu brytu að nokkru leyti gegn ákvæðum laga um neytendalán og laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Var talið skorta á upplýsingar um vexti lánsins, bæði erlendan og íslenskan hluta þess.
Um er að ræða mál þar sem neytandi kvartaði við Neytendastofu vegna bílasamnings sem hann hafði gert við Lýsingu. Fram kom meðal annars í málinu, að Lýsing hafði frá því um vorið 2009 innheimt verðbætur af afborgunum og vöxtum af „íslenska hluta“ lánsins. Taldi neytandinn að þessi verðtrygging leigugreiðslna, miðað við vísitölu neysluverðs, ætti sér enga stoð í samningnum sjálfum, en í honum kæmi fram að hann væri gengistryggður.
Undir þetta tók Neytendastofa og síðan áfrýjunarnefnd neytendamála.
Þegar óskað var eftir viðbrögðum hjá Lýsingu fengust þau svör að fyrirtækið myndi bregaðst við niðurstöðunni með yfirlýsingu síðar í dag.
Úrskurður áfrýjunarnefndar neytendamála