Starfshlutfall minnkað hjá 30 manns

Sjúkrahúsið á Akranesi sem rekið er af Heilbrigðisstofnun Vesturlands.
Sjúkrahúsið á Akranesi sem rekið er af Heilbrigðisstofnun Vesturlands. mbl.is

Heilbrigðisstofnun Vesturlands þarf að spara um 165 milljónir króna á næstu tveimur árum. Engum starfsmanni var sagt upp um áramótin en starfshlutfall um 30 starfsmanna verður skert, samkvæmt frétt Sjónvarpsins. Með þessu sparast um 115 milljónir króna í ár en 50 milljóna niðurskurði verður frestað til næsta árs.

Guðjón Brjánsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, tilkynnti aðgerðirnar á fundi með starfsmönnum Sjúkrahússins á Akranesi í dag. Ekki stendur til að loka neinum deildum en aðgerðirnar verða kynntar á fleiri stofnunum á Vesturlandi á næstu dögum.

Niðurskurður til heilbrigðisstofnana kemur misjafnlega niður eftir landssvæðum. Þannig var tilkynnt um uppsagnir um áramótin hjá Heilbrigðisstofnun Þingeyinga á Húsavík. Hlutfallslega er niðurskurðurinn einna minnstur á Vesturlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert