Styrkur svifryks mun mælast yfir heilsuverndarmörkum í Reykjavík í dag. Fram kemur í tilkynningu frá umhverfis- og samgöngusviði Reykjavíkur að líkur séu á svifryksmengun næstu daga.
Fram kemur að hálftímagildi svifryks klukkan 11 hafi mælst tæplega 500 míkrógrömm á rúmmetra við Grensásveg og meðaltalið frá miðnætti hafi verið 231. Heilsuverndarmörk á sólarhring eru 50 míkrógrömm.
Hálftímagildið klukkan 10 í farstöð Umhverfis- og samgöngusviðsvið Tunguveg í Bústaðahverfi mældist 143 míkrógrömm á rúmmetra og meðaltalið frá miðnætti var 103.
Norðanstæður vindur er á Faxaflóasvæðinu, þurrviðri og lágt rakastig. Töluverður vindur ásamt bílaumferð þyrlar nú upp ryki í borginni og veldur svifryksmengun. Þeir sem eru með viðkvæm öndunarfæri ættu taka tillit til aðstæðna og fylgjast með loftgæðum á vefmæli borgarinnar sem sýnir svifryksmengun við Grensásveg en þar mælist jafnan mesta mengunin.