Úttekt á stjórnsýslu borgarinnar

Frá fundi í borgarstjórn.
Frá fundi í borgarstjórn. mbl.is/Ernir

Borgarstjórn Reykjavíkur hefur samþykkt að skipa nefnd þriggja óháðra sérfræðinga til að yfirfara stjórnkerfi og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar með sama hætti og gert var af rannsóknarnefnd Alþingis síðastliðið vor.

Nefndinni ber m.a. að skoða málsmeðferð, gegnsæi, verkaskiptingu stjórnmála og stjórnsýslu, hæfi og skipan í nefndir og stjórnir, skráningu hagsmunatengsla og siðareglur fyrir stjórnsýslu og stjórnkerfi.

Í tilkynningu segir að sérstaklega skuli fjallað um þau svið stjórnsýslu Reykjavíkurborgar sem varða fjárhagslega hagsmuni þar sem skapast getur hætta á hagsmunaárekstrum, svo sem vegna lóðaúthlutana, lóðaskila, styrkveitinga, þjónustu- og verksamninga, innkaupa og eignasölu.

Útþynning á fyrri samþykkt

Við afgreiðslu borgarstjórnar á málinu lagði Þorleifur Gunnlaugsson, fulltrúi VG, fram bókun. Þar segir m.a. að núverandi tillaga sé útþynning fyrri samþykktar þar sem ný nefnd eigi að draga fram lærdóma og leggja mat á reynslu. Segir Þorleifur að í greinargerð með samþykktinni frá 6. maí sl. sé afdráttarlaust kveðið á um að aðalverkefni nefndarinnar verði að kanna aðkomu stjórnmálamanna að fjárhagslegum ákvörðunum á undanförnum árum og hvort gætt hafi verið eðlilegrar hlutlægni og heiðarleika í þeim afskiptum. Einnig að kanna hvort verktakar, bankar og fyrirtækjasamsteypur hafi fengið óeðlilega fyrirgreiðslu og hvort fjársterkir aðilar hafi beint eða óbeint haft áhrif á pólitískar ákvarðanir og stjórnsýslu borgarinnar og þannig hagnast á tengslum við hana. Jafnframt átti að kanna hvort einstakir embættismenn, borgarfulltrúar eða frambjóðendur til borgarstjórnar hafi hagnýtt sér persónulega eða í þágu síns flokks tengsl við fjársterka aðila sem hafa átt í viðskiptum við borgina.

Þorleifur segir það ekki fara á milli mála að verið sé að draga úr áhrifamætti fyrri samþykktar. Grunsemdir vakni um að núverandi meirihluti vilji kæfa þessa stjórnsýslurannsókn og drepa málinu á dreif.

,,Það er sérstakt umhugsunarefni að sex borgarfulltrúar Besta flokksins sem óumdeilanlega hlaut mikið af sínu kjörfylgi út á verðskuldaða tortryggni almennings gagnvart spilltri stjórnsýslu skuli nú taka þátt í því að útþynna samþykkt um gagngera rannsókn á samspili fjármálafáveldisins annar vegar og stjórnmála og embættismanna hinsvegar," segir m.a. í bókun Þorleifs.

Þorleifur Gunnlaugsson.
Þorleifur Gunnlaugsson.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert