Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra hefur beint tilmælum til sveitarstjórna um að þær hækki fjárhagsaðstoð til einstaklinga þannig að mánaðarleg framfærsla þeirra verði sambærileg og hjá fólki á atvinnuleysisbótum.
Í bréfi ráðherra er bent á markmið laga um félagsþjónustu sveitarfélaga sem er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, meðal annars með því að bæta lífskjör þeirra sem standa höllum fæti. Einnig er vísað til þeirrar lagaskyldu sem hvílir á sveitarfélögum að tryggja að íbúar þeirra geti séð fyrir sér og sínum.
Vísað er til umræðu síðustu missera um erfiða stöðu þeirra sem byggja framfærslu sína á lágmarksbótum almannatrygginga atvinnuleysisbótum eða fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. „Horft var til þessarar erfiðu stöðu þegar lágmarkstekjuviðmið til framfærslu lífeyrisþega sem búa einir var hækkað umtalsvert í janúar 2009 og verður frá og með 1. janúar 2011 rúmar 184.000 kr. Fullar atvinnuleysisbætur nema tæpum 150.000 kr. á mánuði. Grunnfjárhæð sveitarfélaganna hefur að jafnaði verið mun lægri sem getur gert fjárhagslega stöðu þeirra, sem þurfa að reiða sig eingöngu á aðstoð sveitarfélaganna, slaka í samanburði við aðra sem fá bætur frá hinu opinbera,“ segir enn fremur í bréfinu.