Stefnt er að atkvæðagreiðslu í næstu viku um boðun verkfalls síðari hluta janúar meðal starfsmanna í fiskimjölsverksmiðjum á Austurlandi og í Vestmannaeyjum. Upp úr viðræðum slitnaði í byrjun desember.
Ágreiningur er á milli stéttarfélaganna og Samtaka atvinnulífsins um stöðu kjarasamningsins í fiskimjölsverksmiðjunum og lögmæti hugsanlegra verkfallsaðgerða. Talið er nær öruggt að verði tillaga um boðun verkfalls samþykkt muni SA bera ágreininginn undir Félagsdóm.
„Við lítum svo á að þessi samningur í bræðslunum sé hluti af aðalkjarasamningi. Það er því tómt mál að tala um að þeir geti ákveðið einir og sér að þeir ætli sér að fara fram án þess að vera í samfloti með öðrum. Það hefur verið deilt um stöðu þessa samnings á undanförnum árum en við sjáum engar forsendur fyrir því að þessir menn séu að fá eitthvað umfram aðra,“ segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.