Fleiri innan VG að efast um ESB

Ásmundur Einar Daðason, þingmaður VG.
Ásmundur Einar Daðason, þingmaður VG.

Steingrímur J. Sigfússon sagði í Kastljósi Sjónvarpsins að þingflokksfundur VG hefði verið góður. Staðan væri óbreytt með að allir þingmenn VG styddu stjórnina. Sagði Ásmundur Einar Daðason að fleiri þingmenn væru að efast um ESB-umsókn Íslands.

Steingrímur sagði að haldið yrði áfram að ræða ýmis stór mál, eins og ESB-aðild. Unnið yrði eftir leiðsögn frá síðasta flokksráðsfundi VG. Hefjast þyrfti handa um að undir fjárlagagerð fyrir 2012, endurskoðun efnahagsáætlunar AGS og fleiri stór verkefni.

Sagði hann að um Evrópumálin yrði tekist áfram, VG væri almennt ekki flokkur sem væri að fela skoðanaskiptin bakvið luktar dyr. Hlutirnir væru ræddir opinskátt, en rætt hefði verið um á fundinum að tala minna saman gegnum fjölmiðla heldur beint á milli manna á fundum eins og þessum í dag.

Sagði Steingrímur að ágreiningur hefði verið blásinn út í fjölmiðlum milli jóla og nýárs. Það hefði fengist á hreint á fundinum að enginn brestur væri í stuðningi VG við ríkisstjórnarsamstarfið.

Sagði Steingrímur að tekið yrði tillit til allra sjónarmiða, alltaf væri hægt að bæta vinnubrögðin og aðstæður á næstunni yrðu betri þar sem verkefni ríkisstjórnarinnar væru ekki jafn risavaxin og áður. Viðurkenndi Steingrímur að til þessa hefði ekki nægur tími gefist til að tala saman innan raða Vinstri grænna. Aðstæður hefði verið „afbrigðilegar“.

„Opinskáar umræður og löngu tímabærar“

Ásmundur Einar Daðason, þingmaður VG og einn þeirra þriggja sem studdu ekki fjárlögin, sagði í Kastljósi Sjónvarpsins að fundurinn hefði verið góður. Hreinskiptar og opinskáar umræður hefðu farið fram og löngu tímabærar. Stór mál hefðu verið til umræðu, eins og ESB-umsóknin. Margir þeirra sem stutt hefðu þá umsókn væru að fyllast efasemda um að það væri ekki í sama ferli og í upphafi. Menn væru að sjá að þetta ferli væri dýpra og kostnaðarsamara en áður var talið. Auknar kröfur væru um aðlögun og að Íslendingar þyrftu að breyta sínu regluverki.

Sagði Ásmundur Einar að þessi mál yrðu ekki kláruð á einum fundi, áfram yrði rætt um ESB og önnur mál innan VG. Þannig þyrfti að ræða betur ýmsar kröfur ESB varðandi aðildarferlið.

Um ágreining innan þingflokksins sagði Ásmundur að engu hefði verið lokað og umræðan færi fram á næstu fundum þingflokksins. „Þetta var upphafsfundur fremur en lokafundur, enda stór mál sem ekki eru kláruð á tveggja tíma fundum," sagði Ásmundur í Kastljósinu.

„Stjórnin þarf að breyta um kúrs“

Spurður hvort hann styddi ríkisstjórnina sagðist Ásmundur áður hafa sagt að hann myndi verja hana vantrausti ef slík tillaga kæmi fram.

„En ég hef jafnframt sagt að hún (ríkisstjórnin) þurfi að breyta um kúrs í ýmsum stórum og veigamiklum málum. Um það var rætt á þessum fundi og menn voru ásáttir um að halda áfram að ræða," sagði hann jafnframt og batt vonir við að stjórnin myndi breyta um stefnu, t.d. varðandi efnahagsstefnu, ESB-umsókn og margt varðandi vinnubrögð.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG
Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert