Háskólafólk óttist ekki að tjá sig

Háskólinn á Bifröst.
Háskólinn á Bifröst.

„Háskólafólk má ekki óttast að tjá sig um málefni líðandi stundar," sagði Bryndís Hlöðversdóttir, nýr rektor Háskólans á Bifröst, m.a. í innsetningarræðu sinni í dag. Sagði hún hlutverk háskólafólks einnig að hafa áhrif á það siðferði sem yrði til í nýju umhverfi upplýsingaflæðis með tilkomu samskiptaleiða á borð við Facebook og upplýsingagátta á borð við Wikileaks.

„Við getum haft áhrif á það hvort lekinn leiði til þess að leyndin verði enn meiri, eða hvort hann leiði til þess að við tökum í ríkara mæli ákvarðanir sem þola dagsljósið," sagði Bryndís í ræðu sinni, en hún tók við rektorsstöðunni af Magnúsi Árna Magnússyni.

Samkvæmt tilkynningu frá háskólanum kom Bryndís einnig inn á umræðu um sameiningarmál á háskólastigi í ræðu sinni:

„Sameining háskólanna má ekki verða markmiðið sjálfrar sín vegna, hagræðing og skynsöm nýting á opinberum fjármunum til skólanna á að vera markmið, samhliða eflingu háskólastigsins sem slíks. Að niðurstaðan verði öflugri háskólar en við höfum í dag, ekki bara að skólarnir verði færri. Við Íslendingar þurfum vissulega að sníða okkur stakk eftir vexti en í þessum efnum sem öðrum – en við þurfum einnig að gæta þess að standa vörð um sérstöðu skólanna og að falla ekki í þá gryfju að gera háskólana að fjöldaframleiðslueiningum, þar sem allir eru steyptir í sama mót.“

Að lokum þakkaði Bryndís fyrrverandi nemendum skólans, Hollvinum, fyrir þann mikla stuðning sem þeir hefðu sýnt á síðustu misserum. Slíkur stuðningur væri ómetanlegur og yrði seint þakkaður.

Bryndís Hlöðversdóttir, nýr rektor á Bifröst.
Bryndís Hlöðversdóttir, nýr rektor á Bifröst.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert