Reykjanesbær leiti á náðir ráðuneytis

Frá Reykjanesbæ.
Frá Reykjanesbæ. mbl.is/ÞÖK

Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar var samþykkt í gær með sjö atkvæðum meirihlutans. Í bókun Samfylkingarmanna í minnihlutanum er lagt til að Reykjanesbær leiti til ráðuneytis sveitarstjórnarmála sem geti heimilað Jöfnunarsjóði sveitarfélaga að veita bæjarsjóði styrk eða lán.

Í bókun minnihlutans segir að fjárhagsáætlunin fyrir 2011 sé einsdæmi í sögu Reykjanesbæjar, vegna þess niðurskurðar sem henni fylgi og þeim fjölda óvissuþátta sem í henni felist. Er bent á að skuldir bæjarsjóðs hafi meira en fimmfaldast frá árinu 2002, er þær voru um 5 milljarðar en séu nú 29 milljarðar, eða 400% af tekjum bæjarsjóðs. Með samstæðunni séu skuldir bæjarins um 42 milljarðar króna. Þar vigti mest fimmföldun skulda Reykjaneshafnar.

Þrjú B-hluta félög í greiðslufalli 

Þá benda Samfylkingarmenn á að þrjú B-hluta fyrirtæki Reykjanesbæjar séu í greiðslufalli; þ.e. Víkingaheimar, Reykjaneshöfn og Kalka. Óljóst sé enn hvernig mál þeirra leysist en ljóst sé að rekstur þeirra standi ekki undir skuldum og bæjarsjóður hvorki muni eða geti hjálpað þar til.

Segja þeir að sparnaður meirihlutans felist m.a. í lækkuðu starfshlutfalli bæjarstarfsmanna um 10-20%, skerðingu í öllum málaflokkum um 30-40%, framkvæmdastoppi og viðhaldi í lágmarki, miklum skerðingum á framlögum til mennta-, tómstunda- og íþróttamála, hækkun fasteignagjalda þrátt fyrir lækkun fasteignamats og að lögbundin þjónusta sveitarfélagsins sé komin undir viðmiðunarmörk.

„Af ofangreindu er ljóst að fjármál Reykjanesbæjar eru í ólestri, eytt hefur verið um efni fram og nú er komið að skuldadögum," segir í bókun bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar, sem ásamt bæjarfulltrúa Framsóknarflokksins sat hjá við atkvæðagreiðslu um fjárhagsáætlunina í gær.

Samkvæmt fjárhagsáætluninni eru heildartekjur bæjarsjóðs 8,9 milljarðar króna og tekjur samstæðunnar eru áætlaðar um 13,2 milljarðar. EBITDA-hagnaður hjá bæjarstjóri, þ.e. hagnaður fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir, er um 5,7% af tekjum en um 21,7% hjá samstæðu. Að teknu tilliti til afskrifta og fjármagnsliða verður rekstrarafgangur bæjarsjóðs 121,4 milljónir kr. en samstæðunnar um 396 milljónir króna.

Í bókun meirihlutans, sem Árni Sigfússon bæjarstjóri lagði fram, segir m.a. að ekki sé gert ráð fyrir neinum nýjum tekjum í bæjarsjóð vegna nýrra atvinnuverkefna. Vandi Reykjanesbæjar hafi tengst láglaunastörfum á svæðinu og atvinnuleysi. Skatttekjur á íbúa séu mun lægri en meðaltekjur íbúa á landinu. Þess vegna hafi það verið og verði forgangsmál forystu Reykjanesbæjar að skapa atvinnugrunn fyrir íbúa sem skilar þeim hærri tekjum og þar með bæjarfélaginu um leið. Þrátt fyrir að mörg hálaunuð atvinnuverkefni hafi tafist verulega, sé það fullvissa forystu Reykjanesbæjar að úr rætist á þessu ári.

Treyst á aukin atvinnutækifæri 

Skuldir bæjarsjóðs við lánastofnanir nema nú rúmum 8 milljörðum króna, en að teknu tilliti til leiguskuldbindinga, lífeyrissjóðsskuldbindinga og annarra skulda eru heildarskuldir bæjarsjóðs áætlaðar 28,5 milljarðar króna, segir í bókun meirihlutans. Eignir bæjarsjóðs nemi um 35 milljörðum króna. Síðan segir í bókun meirihlutans:

„Miðað við títtnefnt skuldahlutfall, þar sem frá skuldum og skuldbindingum er rétt að draga peningalegar eignir, svo sem skuldabréfaeign og innistæður á bankabók, er umrætt skuldahlutfall bæjarsjóðs nú áætlað 214% af tekjum en skuldir samstæðu 252% af tekjum. Forsendur þess að bæjarfélaginu takist að lækka skuldir hratt byggja á auknum atvinnutækifærum með vel launuðum störfum."

Árni Sigfússon bæjarstjóri
Árni Sigfússon bæjarstjóri
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert