528 tóku út fyrirframgreiddan arf

Á síðasta ári voru gerðar 528 erfðafjárskýrslur vegna fyrirframgreidds arfs hjá sýslumanninum í Reykjavík, þar af 321 í desember. Þetta er mun meira en í fyrra þegar 275 slíkar skýrslur voru gerðar. Ástæðan fyrir þessari aukningu er sú að um áramót hækkaði erfðafjárskattur úr 5% í 10%.

Alls voru 782 erfðafjárskýrslur gerðar hjá sýslumanninum í Reykjavík árið 2009. Þar af voru 507 vegna dánarbúa og 275 vegna fyrirframgreidds arfs. Í fyrra voru gerðar 1208 erfðafjárskýrslur hjá embættinu. 680 voru vegna dánarbúa og 528 vegna fyrirframgreidds arfs.

Það var gríðarlega mikið að gera í sifja- og skiptadeild sýslumannsins í Reykjavík í desember, en embættið tók á móti og afgreiddi 321 skýrslu vegna fyrirframgreidds arfs.

Lögin sem samþykkt voru í lok síðasta árs fela í sér að erfðafjárskattur hækkar úr 5% í 10%. Samhliða hækka skattfrelsismörk skattsins á hvert dánarbú úr einni milljón í 1,5 milljónir. Gert er ráð fyrir að þetta skili ríkissjóði einum milljarði til viðbótar í skatta og heildartekjur af skattinum verði 2.350 milljónir á þessu ári.

Ekki eru nema sex ár síðan erfðafjárskattur var lækkaður úr 10% niður í 5%, en nú er verið að breyta því aftur. Lögin voru einfölduð árið 2004, en áður tók skattlagning mið af skyldleika, þ.e. þeir sem voru lögerfingjar greiddu lægri skatt en þeir sem voru fjarskyldir. Engin breyting var gerð á þessum þætti laganna því áfram er miðað við einfalda skattprósentu sem nær jafnt til allra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka