Ari furðar sig á tilboði Rúv

Íslenska karlalandsliðið í handbolta á æfingu í Framheimilinu.
Íslenska karlalandsliðið í handbolta á æfingu í Framheimilinu. mbl.is/Ernir

Ari Edwald, forstjóri 365 miðla, hyggst ekki taka tilboði útvarpsstjóra um kaup á sýningarrétti HM í handbolta alvarlega og kallar tilboðið sprell. Hann furðar sig á því hvaðan peningarnir sem rætt er um koma og um leið á forgangsröðun ríkisstjórnarinnar.

„Ég sé að það hefur verið lögð meiri áhersla á að senda fjölmiðlum tilboðið en mér, þannig að ég lít ekki á þetta sem eitthvað tilboð til mín í alvöru,“ segir Ari.

„Ég lít fremur á þetta sem einhverja fýlubombu frá Rúv inn í þetta mál og eitthvert framhald á áramótaskaupinu. Páll gerir sér fulla grein fyrir því að þetta tilboð er allt of seint fram komið. Það hefur staðið yfir undirbúningur hér mánuðum saman og við erum búin að selja áskriftir vegna mótsins.“

Ari minnist þess að viðræður RÚV og 365 miðla vegna kaupa hinna síðarnefndu á sýningarrétti á hluta HM í knattspyrnu 2010 hafi staðið yfir mánuðum saman.

„Við erum ekki bara búin að selja áskriftir, heldur líka auglýsingar. Við höfum gjörnýtt tekjumöguleika í kringum mótið. Í útspili Páls gerir hann ráð fyrir því að taka við öllu slíku frá okkur. Rúv ætlar því að greiða okkur tugi milljóna fyrir sýningarréttinn án þess að geta aflað tekna á móti. Og ætlar að kosta til í kringum útsendingar og dagskrárgerð. Mér finnst þetta stórfurðulegt mál. Ef ríkið hefur allt í einu fundið tugi milljóna sem það hefur aflögu og lausa til frjálsrar ráðstöfunar, þá skil ég ekki að það sé efst á forgangslista velferðarstjórnarinnar að kaupa fyrir þá sýningarrétt að íþróttakappleikjum“ segir forstjórinn.

„Ég hef persónulega meiri áhyggjur af fólkinu hér á Íslandi sem á ekki fyrir mat. Við erum að tala um þannig upphæðir að ríkið gæti með þessum fjármunum sem verið er að tala um án þess að tekjur komið á móti, hæglega eytt að minnsta kosti helmingi af biðröðunum sem hafa verið eftir mat hér í höfuðborginni.“

Ari segir að honum hefði þótt eðlilegra út frá jafnræðis- og samkeppnissjónarmiðum ef menntamálaráðuneytið hefði nálgast 365 miðla með það í huga að sýna fleiri leiki í opinni dagskrá, í stað þess að blanda samkeppnisaðilanum, Rúv, inn í málið.

„Eins og allir vita, þar á meðal Páll Magnússon - og þetta er bara hugsað að hans hálfu sem sprell - þá er út í hött að ræða við okkur núna að við séum að fara framselja sýningarrétt að stórmóti sem hefur verið í undirbúningi mánuðum saman og hefst eftir örfáa daga. Ef að honum eða ríkinu er alvara, þá gera þau okkur tilboð um að ræða um sýningarréttinn 2013,“ segir Ari að lokum.

Ari Edwald, forstjóri 365 miðla.
Ari Edwald, forstjóri 365 miðla. Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert