Díoxínið var rétt yfir mörkum

Sorpbrennslustöðin Funi.
Sorpbrennslustöðin Funi. Mynd bb.is

Díoxín í mjólk frá kúabúi í nágrenni við sorpbrennslustöðina Funa á Ísafirði mældist vera 3,98 pg/g fitu en það er rétt fyrir ofan leyfilegt mark sem er 3 pg/g fitu. Mjólkin frá búinu blandaðist mjólk frá öðrum búum í nágrenninu og var því væntanlega mikil þynning á díoxíni í mjólkurvörum frá Mjólkursamsölunni.

Þetta kemur fram í frétt á vefsíðu Landlæknis. Þar er sagt frá fundi sem haldinn var 4. janúar sl.  í stjórnskipaðri samstarfsnefnd um sóttvarnir. fundurinn var haldinn vegna díoxínmengunar frá Funa. Þar kemur fram að Mjólkursamsalan hafi látið gera eina mælingu á mjólk frá kúabúinu í nágrenni við Funa með fyrrgreindri niðurstöðu. 

Nú fer fram rannsókn á vegum Matvælastofnunar á díoxíni í kjötafurðum frá kindum. Einnig verða tekin ný sýni úr mjólk og fóðurrúllum frá kúabúinu í námunda við Funa. Mjólkursýni verða líka tekin frá býlum í nágrenninu.

„Fram kom að ekki hefur orðið vart einkenna af völdum díoxíns eða annarra eitrana meðal íbúa á Ísafirði. Engu að síður var það mat fundarins að mikilvægt væri að fá sem gleggstar upplýsingar um hugsanlega díoxíðmengun á svæðinu með því að mæla efnið í afurðum dýra og fóðri áður en gripið yrði til frekari aðgerða,“ segir í frétt Landlæknis. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert