„Engar ákvarðanir verið teknar um veggjöld“

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra. mbl.is/Sigurður Bogi

„Við fylgjumst auðvitað með viðbrögðum en ég minni hins vegar á að engar ákvarðanir hafa verið teknar. Það er langt þar til innheimta veggjalda kemur til framkvæmda, ef af henni verður,“ segir Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra.

Alls 34.300 manns höfðu nú um í hádeginu skrifað nafn sitt á vefsetur Félags íslenskra bifreiðaeigenda þar sem mótmælt er vegsköttum á þeim leiðum sem liggja út frá höfuðborgarsvæðinu „í ofanálag við ofurháa eldsneytis- og bifreiðaskatta,“ eins og FÍB kemst að orði.

Til að bregðast við þeim gagnrýnisröddum sem nú eru uppi segist Ögmundur Jónasson á næstunni munu skipa þverpólitíska nefnd fulltrúa úr ýmsum áttum þar sem kostir og gallar vegtolla verða vegnir og metnir.

„Fólk kallar eftir samgöngubótum en þær kosta peninga. Þá staðreynd er mikilvægt að hafa í huga nú þegar ríkissjóður er tómur. Þetta er í raun spurning um valkosti,“ segir Ögmundur sem undirstrikar að enn hafi engin ákvörðun um vegtolla verið tekin. Málið eigi eftir að ræða í botn og þannig munu t.d. sveitarstjórnarmenn af Suðurlandi funda með innanríkisráðherra síðar í dag þar sem vegtollarnir verða ræddir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert