Tíðni banaslysa í umferðinni var lægstur á Íslandi af öllum Norðurlöndunum á síðasta ári. Fjöldi þeirra sem létust er 2,5 miðað við 100 þúsund íbúa en samkvæmt bráðabirgðatölum frá öðrum Norðurlöndum er fjöldi látinna þar frá 2,9 og uppí 5,1 á hverja 100 þúsund íbúa.
Þetta kom fram á blaðamannafundi um umferðaröryggismál. Átta manns létust í banaslysum í umferðinni á síðasta ári. Það er umtalsverð fækkun frá fyrra ári og fyrri árum.
Þegar tölur um fjölda banaslysa eru skoðaðar sést að þær sveiflast mjög milli ára, ekki síst hérlendis þar, en á síðasta ári eru slysin hér ívið færri en til dæmis í Svíþjóð sem hefur lengi verið fremst meðal þjóða í umferðaröryggi.
Þá er líka vert að geta þess að ökuhraði að sumarlagi hefur lækkað. Þannig var meðalökuhraði á 10 stöðum á hringveginum 93,4 km á klst. og hefur lækkað úr 97 km frá árinu 2004.
Alls voru 22.160 brot skráð með stafrænum hraðamyndavélum árið 2010 samkvæmt málaskrá lögreglunnar. Þetta eru bráðabirgðatölur því enn er verið að vinna skráningar brota sem áttu sér stað undir lok ársins. Flest brotin á árinu 2010 voru skráð í júní, júlí og ágúst en fæst undir lok ársins sem er breyting frá fyrra ári. Þær miklu breytingar sem urðu á hraðakstursbrotum í október, nóvember og desember árið 2009 má rekja til uppsetningar hraðamyndavéla á Suðurlandi.