Mikill kippur hefur komið í bólusetningar gegn svínaflensunni að undanförnu samkvæmt upplýsingum Haraldar Briem sóttvarnalæknis. Fregnir hafa borist af fyrstu inflúensutilfellunum og þar af hafa fjórir einstaklingar greinst með svínainflúensu. Þurfti einn þeirra að leggjast inn á sjúkrahús í stuttan tíma en veikindi hans reyndust ekki alvarleg.
Þeir sem voru bólusettir gegn svínainflúensu í fyrra þurfa fæstir að fara aftur í bólusetningu en þeir sem eru eldri en 60 ára og með undirliggjandi áhættuþætti ættu að fá árstíðabundnu bólusetninguna sem hefur verið í boði frá í haust, að sögn Haraldar. Það bóluefni veitir bæði vörn gegn árstíðabundu inflúensustofnunum og vinnur gegn svínainflúensunni.
Þó að talið sé að önnur bylgja svínainflúensu sé að hefjast binda heilbrigðisyfirvöld vonir við að hún verði ekki mjög útbreidd hér á landi. Búið er að bólusetja um það bil helming þjóðarinnar. Eru þeir sem ekki hafa fengið bóluefnið hvattir til að láta bólusetja sig, einnig þeir sem hafa fengið inflúensulík einkenni en hafa ekki fengið staðfest að þeir hafi veikst af svínainflúensu.
Árstíðabundna inflúensan hefur einnig gert vart við sig að undanförnu. Eitt tilfelli af inflúensu A og annað tilfelli af B-stofni hafa verið staðfest að sögn Haraldar. „Við mælum þetta líka á fjölda þeirra sem leita til heilbrigðisþjónustunnar með inflúensulík einkenni og erum aðeins orðin vör við að hún sé að aukast en þetta getur þýtt að það séu einhverjar vikur í að við sjáum stærri útbreiðslu. Vonandi verður hún þó ekkert mjög stór því við erum þrátt fyrir allt þokkalega varin.“