Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir að verulega kalt loft berist nú til suðurs yfir vestanvert landið. Á veðurbloggi sínu bendir hann á að mjög kalt verði vestur á fjörðum og á Snæfellsnesi. Spáð sé um 17 stiga frosti í um 300-400 metra hæð. Vindstyrkur sé um 15-18 metrar á sekúndu. Vindkæling á bert hörund samsvari þá um 40 stiga frosti.
„Um leið og frostið mun bíta að þá er með því talsvert mikil vindkæling þegar hvessir enn frekar í kvöld og nótt. Í Reykjavík má þannig gera ráð fyrir um 10 stiga frosti kl.18 og á sama tíma N-átt 10-12 m/s,“ skrifar Einar.
„Enn kaldara verður vestur á fjörðum og á fjallvegum þar og eins á Snæfellsnesi í um 300-400 metra hæð er spáð -16 til -17 °C og vindstyrk um 15-18 m/s síðar í dag. Vindkæling á bert hörund samsvarar þá -40 til -45°C með sömu aðferð,“ skrifar Einar ennfremur.