Tekist var á um það í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag hvort staðfesta eigi kyrrsetningu á eignum Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Lárusar Welding hér á landi til tryggingar 6 milljarða króna skaðabótakröfu Glitnis banka á hendur þeim og fleirum.
Sýslumaðurinn í Reykjavík féllst um mitt síðasta ár á kröfur bankans um kyrrsetningu eignanna. Í dag krafðist Glitnir þess að dómurinn staðfesti kyrrsetninguna en Lárus og Jón Ásgeir kröfðust þess að kyrrsetningin yrði felld úr gildi.
Hróbjartur Jónatansson, lögmaður Glitnis, sagði í málflutningi, að mál Lárusar væri skólabókardæmi um það hvenær kyrrsetja mætti eignir þótt ekki væri búið að kveða upp úr um réttmæti kröfunnar, sem kyrrsetningin ætti að tryggja. Sagði hann m.a. að Lárus hefði flutt lögheimili sitt til Bretlands en ekki væri vitað nánar hvar hann heldur sig þar.
Þá lægi fyrir, og hefði m.a. komið fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, að Lárus hefði flutt peningainnistæður sínar að mestu eða öllu leyti til útlanda. Við kyrrsetninguna hefðu einu eignir Lárusar, sem fundust hér á landi, verið helmingur í íbúð og bíll. Líklegt yrði að þessar eignir yrðu fluttar utan seilingar skuldheimtumanna hans en kyrrsetning yrði felld úr gildi.
Sagði Hróbjartur að sömu ástæður giltu að mestu varðandi Jón Ásgeir. Hann væri með lögheimili í Bretlandi, hann hefði staðið í fjármagnsflutningum, sent eignir og fært á eiginkonu sína, þar á meðal hlutabréf í fjölmiðlafyrirtækinu 365. Þá hefði komið fram að hann réði yfir flóknu neti fyrirtækja í útlöndum.
Þá hefði Jón Ásgeir sjálfur sagt í greinargerð vegna málsins, að allar helstu eignir hans hefðu brunnið upp í kjölfar bankahrunsins.
Ragnar Halldór Hall, lögmaður Lárusar, sem flutti einnig mál Jóns Ásgeirs, mótmælti því harðlega að um væri að ræða skólabókardæmi um kyrrsetningu.
Hann sagði, að Lárusi hefði verið heimilt samkvæmt lögum að flytja fjármuni milli landa samkvæmt lögum sem þá giltu, enda væri hann búsettur erlendis ásamt fjölskyldu sinni. Þá skuldaði hann engum neitt, ætti ekki í neinum hlutafélögum og hefði ekki nýtt sér kaupréttarsamninga meðan hann starfaði hjá Glitni.
Ragnar sagði, að það eina og hálfa ár sem Lárus vann hjá Glitni hefðu launagreiðslur til hans numið 435 milljónum króna, 214 milljónum eftir skatta.
Krafan um kyrrsetningu var gerð til að tryggja skaðabótakröfur Glitnis á hendur fyrrverandi eigendum og starfsmönnum Glitnis um samtals 6 milljarða króna. Var málið höfðað vegna lánveitinga til hlutafélagsins FS38 ehf. Það félag var í eigu eignarhaldsfélagsins Fons, sem var í eigu Pálma Haraldssonar en er nú til gjaldþrotaskipta.
Hróbjartur sagði að krafan byggðist á því, að Lárus hefði með saknæmum og ólögmætum hætti, tekið ákvörðun um að heimila að lána FS38 6 milljarða króna gegn ófullnægjandi veðum í hlutabréfum Fons í öðrum félögum og þannig gert Jóni Ásgeiri og Pálma kleift að ná peningum úr bankanum, 2 milljörðum króna, til persónulegra nota.
Ragnar sagði, að skaðabótakrafan væri afar langsótt vegna þess að hvorki Lárus né Jón Ásgeir væru skuldarar þess láns, sem veitt var. Því gæti kyrrsetning ekki farið fram til að tryggja kröfuna þar sem sýna þyrfti fram á að viðkomandi væri skuldari.
Fram kom, að upphaflega var úrskurðað um kyrrsetningarkröfu á hendur Lárusi í júní í fyrra en krafan var endurupptekin í desember vegna þess, að hún hljóðaði upp á kyrrsetningu til tryggingar 6 milljarða kröfu. Þegar þinglýsa átti kyrrsetningunni ætlaði embætti sýslumanns að innheimta stimpilgjald af þeirri upphæð. Fór bankinn þá fram á að krafan næði aðeins til íbúðarinnar og bílsins, sem Lárus benti á; raunar kom einnig fram að númer bílsins var rangt á skjali sem var þinglýst.
Ragnar taldi að þessi endurupptaka ætti hugsanlega að leiða til frávísunar málsins en því mótmælti Hróbjartur.
Þá sagði Ragnar að réttarspjöll hefðu verið framin þegar eignir Jóns Ásgeirs voru kyrrsettar því Jón Ásgeir hefði ekki verið boðaður, aðeins sendur tölvupóstur til Gests Jónssonar, sem hefur verið lögmaður Jóns Ásgeirs í öðrum málum.
Hróbjartur sagði, að Jón Ásgeir væri með lögheimili í Bretlandi en væri þar óstaðsettur í hús og ekki hefði verið hægt að ætlast til að sýslumaður hefði upp á honum þar.
Um það sagði Ragnar, að Glitnir hefði stefnt Jóni Ásgeiri bæði í Bretlandi og New York og því væri fáránlegt að halda því fram að bankinn hafi ekki vitað um dvalarstað hans.