Leitað eftir ábendingum foreldra og starfsfólks

Kristján Kristjánsson

Starfshópur sem greina á tækifæri til endurskipulagningar í rekstri leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila í Reykjavíkurborg hefur opnað ábendingagátt. Hópurinn leitar eftir hugmyndum foreldra leikskóla- og grunnskólabarna, svo og starfsfólks skóla og frístundaheimila. 

Þann 4. nóvember á síðasta ári var skipaður starfshópur til að greina tækifæri til endurskipulagningar í rekstri leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila með faglegan og fjárhagslegan ávinning í huga. Markmið borgaryfirvalda er að gera gott skóla- og frístundastarf enn betra og nýta sem best það fjármagn sem varið er í menntun og frístundastarf barna og unglinga í borginni.

Verkefni starfshópsins er að skoða og greina þau tækifæri sem kunna að vera til staðar til endurskipulagningar og/eða sameiningar leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila í borginni. Í starfinu hefur hópurinn að leiðarljósi að standa vörð um faglegt starf og nýta styrkleika hverrar einingar sem best. Hópurinn er að skoða ýmsar útfærslur og möguleika á endurskipulagningu og geta tillögur hans snúið að sameiningu grunnskóla, sameiningu leikskóla, sameiningu leik- og grunnskóla, samþættingu grunnskóla- og frístundastarfs eða sameiningu leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila. Jafnframt verða skólahverfismörk til skoðunar. Hópurinn mun skila tillögum í febrúar 2011.

Ábendingagátt

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert