Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis, segir að í lok þessa mánaðar eða í byrjun þess næsta verði gert opinbert til hvaða aðgerða slitastjórnin ætli að grípa gegn sjömenningunum, sem áttu og stjórnuðu Glitni fyrir hrun.
Dómari í New York féllst á síðasta ári á kröfu sjö fyrrum eigenda og stjórnenda Glitnis um að vísa frá máli slitastjórnar Glitnis gegn þeim. Þegar málið var höfðað á síðasta ári sagði slitastjórnin, að klíka fésýslumanna, undir forystu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, hefði tekið sig saman um að hafa með skipulegum hætti fé af Glitni til að styðja við sín eigin fyrirtæki þegar þau riðuðu til falls.
Steinunn segir að það hafi alltaf legið fyrir að með því að taka málið upp í Bandaríkjunum væri verið að fara nýja leið sem menn hafi ekki vitað hvort að var fær. „Við vorum að reyna eitthvað nýtt, en við vorum alltaf með plan B. Þess vegna getum við sagt að það þarf ekki að bíða lengi eftir næstu aðgerðum.“
Steinunn segir að málið í New York hafi ekki verið tengt kyrrsetningarkröfu sem slitastjórn lagði fram í London, en í henni fólst að allar eignir þeirra hvar sem er í heiminum yrðu kyrrsetar. Það mál hefði verið höfðað vegna Aurum-málsins svonefnda, skaðabótamáls sem Glitnir höfðaði á hendur fyrrverandi starfsmönnum og eigendum bankans og krafðist 6 milljarða króna í bætur. Kyrrsetningin stendur þangað til dómur fellur á Íslandi.