Útgjöld ríkissjóðs til heilbrigðismála drógust saman um 3 milljarða milli ára á fyrstu ellefu mánuðum ársins en voru samt 708 milljónir umfram áætlanir.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fjármálaráðuneytinu. Útgjöld til Landspítala drógust saman um 2 milljarða milli ára sem er í takt við þá hagræðingarkröfu sem gerð var.
Útgjöld til framkvæmda Vegagerðarinnar drógust saman um 3,8 milljarða á milli ára. Útgjöld til menntamála jukust um 2,1 milljarða á milli ára. Mest jukust útgjöld til Lánasjóðs íslenskra námsmanna um 2,1 milljarða sem er nokkurn veginn það sem gert var ráð fyrir.
Handbært fé frá rekstri ríkissjóðs var neikvætt um 72,7 milljarða króna en var neikvætt um 122,8 milljarða á sama tímabili 2009.
Tekjur reyndust um 44,2 milljörðum hærri en í fyrra á meðan að gjöldin drógust saman um 12,6 milljarða milli ára. Í fréttatilkynningu frá fjármálaráðuneytinu segir að þetta sé mun betri niðurstaða en gert var ráð fyrir í áætlunum þar sem gert var ráð fyrir að handbært fé frá rekstri yrði neikvætt um rúma 105 milljarða.