Veskisþjófurinn úr Kringlunni fundinn

Aríel Jóhann Árnason.
Aríel Jóhann Árnason.

„Það sem ég veit núna er að konan sem stal veskinu er fundin. Hún sagði við lögregluna að hún ætlar að skila veskinu og hefur játað glæpinn,“ segir Aríel Jóhann Árnason. Aríel vakti mikla athygli þegar hann lýsti þjófnaðinum í Morgunblaðinu fyrir stuttu.

Í greininni sagði Aríel, að kona í hvítri úlpu hefði stolið af honum veskinu þegar hann var að versla í Kringlunni á Þorláksmessu.

Þessa dagana bíður Aríel átekta eftir því að fá veskið aftur í hendurnar. Hann reiknar þó ekki með því að fá peningana sína aftur. „Ég efast stórlega um það, en veit það svo sem ekki. Ég veit að hluta peninganna var eytt um leið, - aðeins mínútum eftir þjófnaðinn,“ segir Aríel.

Veskið var stútfullt af seðlum sem Aríel hlotnaðist þegar hann útskrifaðist úr framhaldsskóla laust fyrir jólin. Þar að auki voru peningar í veskinu sem sonur Aríels fékk í skírnargjöf.

Konan gaf sig ekki fram. Aríel segir að lögreglan hafi fundið hana með hjálp myndskeiða úr Kringlunni. Aríel kom sjálfur að leitinni og segir ennfremur að einn lögreglumaður hafi þekkt konuna. Aríel hefur lagt fram kæru vegna atviksins.

Aríel fékk mikil og jákvæð viðbrögð við grein sinni. „Það voru ótal einstaklingar sem buðu mér og fjölskyldu minni hjálp og buðust til að styrkja okkur yfir jólatímann. Það var rosalega gaman að finna fyrir þessum stuðningi.“

Aríel segir þessa lífsreynslu ekki hafa breytt sér mikið. „Ég er ekkert þjófhræddari núna en ég var áður eða neitt svoleiðis - en ég er kannski aðeins ábyrgari.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert