Vilja gera smokka ódýrari

Þegar nokkrir nemendur við Menntaskólann á Akureyri könnuðu verð á smokkum á Íslandi í nýjum áfanga í skólanum ofbauð þeim hversu hátt það er. Verðkönnunin var hluti af verkefni í svonefndum Íslandsáfanga sem verið er að reyna í fyrsta skipti í MA, fyrstum skóla á landinu, og áttu nemendur þar að velja sér málstað og berjast fyrir honum.

„Okkur fannst verð á smokkum svo hátt að við fórum að kynna okkur þetta og komumst þá að því að þeir eru í hæsta mögulegum [virðisauka]skattsflokki og eru flokkaðir sem munaðarvara en ekki heilbrigðisvara,“ segir Birta Kristjánsdóttir, einn nemendanna. Eftir því sem þau komust næst við eftirgrennslan sína var ódýrasta stykkið af smokkum á landinu á 80 krónur.

„Okkur finnst þetta svo mikilvægt því þjóðfélagið er að borga mjög há gjöld fyrir kynsjúkdóma og meðhöndlun þeirra og ótímabærar þunganir, þá bæði fóstureyðingar og að styðja einstæðar mæður,“ segir hún.

90% á undirskriftalista

„Við hugsuðum okkur þetta þannig að fyrst væri hægt að lækka verð fyrir unglinga og námsfólk sem er ekki að vinna eða vinnur lítið. Það er enginn að fara segja unglingum að hætta að stunda kynlíf svo það yrði þá bara gert áfram óvarið,“ segir Birta.

Nemendurnir stofnuðu Facebook-síðu sem hluta af verkefninu og stóðu þar að auki fyrir undirskriftasöfnun í skólanum um að breyta virðisaukaskattlagningu á smokkum. Segir Birta að um 90% nemenda við menntaskólann hafi skrifað nafn sitt undir og ætlunin sé að skila listanum til heilbrigðisráðuneytisins og annarra yfirvalda sem málið varðar. kjartan@mbl.is

Í hæsta skattþrepi

Ríkið setur smokka í hæsta skattþrep þannig að á þeim er 25,5% virðisaukaskattur og eru þeir flokkaðir sem munaðarvara. Beiðni frá Sóttvarnaráði um ókeypis smokka fyrir ungt fólk hefur legið á borði heilbrigðisráðuneytisins frá árinu 2004.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert