12 m ölduhæð á Grímseyjarsundi

Siglufjörður
Siglufjörður mbl.is

Aðeins mátti merkja hreyfingu í Siglufjarðarhöfn í gærkvöldi en þar var stórstraumsflóð um hálfeitt í nótt. Norðan- og norðaustan stormur hefur verið á Siglufirði og ölduhæð á Grímseyjarsundi 12 metrar í morgun. Það er með því mesta sem þar sést, að sögn Sigurðar Sigurðssonar, yfirhafnarvarðar.

Sigurður sagði að vindur hafi verið þannig að Siglufjörður hafi verið mikið í skjóli. „Það er hins vegar svakalegur sjór hérna fyrir utan. Það er mikið meira brim en var í gærkvöldi. Það var 12 metra ölduhæð á duflinu á Grímseyjarsundi klukkan 10 í morgun. Það er með því mesta sem maður sér,“ sagði Sigurður. Ölduhæðin var komin í 10,7 metra klukkan 11.00.

Sigurður taldi að öll skip væru í vari og vissi ekki af neinu á siglingu fyrir Norðurlandi. Hann sagði að menn hafi gengið vel frá bátum og skipum í höfninni áður en veðrið brast á. Vakt var við höfnina og eins og voru margir eigendur báta á ferli vel fram yfir stórstraumsflóðið. Þá fór Sigurður aftur á stjá síðar í nótt, eins og hann er vanur að gera þegar er vont veður.

Hann sagði menn óttast mest að það verði mikið sog í höfninni. Þess gætti aðeins í nótt en ekki svo mikið að hætta stafaði af. 

„Það hefur verið leiðindaveður, en sloppið samt tiltölulega vel,“ sagði Guðbrandur J. Ólafsson, aðalvarðstjóri á Siglufirði. Hann sagði að ófært væri úr bænum og Múlinn ófær. Hann taldi að fært væri til Ólafsfjarðar enda leiðin að mestu „innanhúss“.

Guðbrandur sagði að minna hafi snjóað hjá þeim en inni í Eyjafirði og ekki mikill snjór á svæðinu. Allt var orðið fært innanbæjar á Siglufirði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert