Bílar skemmdust í sandfoki

Afturrúðan var brotin á bíl Ásmundar og bíllinn sandblásinn, eftir …
Afturrúðan var brotin á bíl Ásmundar og bíllinn sandblásinn, eftir eina nótt við Landeyjahöfn. Ljósmynd/Ásmundur Þorkelsson

Bílar skemmdust á bílastæðinu við Landeyjahöfn í sandfoki í morgun. Rúða brotnaði í einum og var þykkt sandlag í honum þegar eigandinn kom úr Vestmannaeyjum í dag.

Eigandi bílsins, Ásmundur Þorkelsson fór með Herjólfi til Vestmannaeyja með síðustu ferð í gærkvöldi. „Það var allt fullbókað þannig að ég þurfti að skilja bílinn eftir í landi, á bílastæði sem til þess er ætlað,“ segir hann.

Hann var látinn vita um það í hádeginu í dag að bíllinn væri stórskemmdur. „Þegar ég náði í bílinn voru einhverjir tugir kílóa af sandi inni í honum og lakkið ónýtt á helmingi bílsins. Ein rúða var brotin og hinar sandblásnar. Speglarnir eru brotnir. Það á svo eftir að koma í ljós hvernig bíllinn er farinn að öðru leyti,“ segir Ásmundur.

Hann hefur kynnt sér lauslega kostnað við viðgerðir og telur að hann hlaupi á hundruðum þúsunda. Tryggingar bæta ekki tjón á ökutækjum vegna foks á jarðefnum.

Margir bílar voru á bílastæðinu í morgun. Ásmundur taldi að margir þeirra væru eitthvað skemmdir vegna sandfoksins, þótt hans bíll hefði farið verst.

Sigmar Jónsson, starfsmaður Eimskips við Landeyjahöfn, segir að mjög hvasst hafi verið í morgun, frá klukkan átta og framundir hádegi. Sandur hafi fokið yfir hafnarsvæðið. 

Hann sagði að nokkrir bílanna á stæðinu hefðu skemmst , væru mattir og sandblásnir, en sagðist ekki hafa athugað gaumgæfilega hversu margir.

Þetta er í fyrsta skipti sem bílar skemmast vegna sandroks við Landeyjahöfn, eftir því sem næst verður komist. Sigmar segir að áður hafi aðeins skafið en aldrei í líkingu við það sem starfsfólkið varð vitni að í gærmorgun. 

Skilti er við innkomuna á bílastæðin þar sem varað er við hættu á sandfoki. Ásmundur segist ekki hafa tekið eftir skiltinu. Sigmar tekur undir það að vara megi betur við þessari hættu.

Sandur hafði fokið inn um brotnu rúðuna.
Sandur hafði fokið inn um brotnu rúðuna. Ljósmynd/Ásmundur Þorkelsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert