Þeir einstaklingar sem fengu lán til að taka þátt í stofnfjáraukningu Sparisjóðs Svarfdæla í lok árs 2007 gætu þurft að borga 50.000 krónur á mánuði næstu 15 árin til að gera upp skuld sína.
Stofnbréfin sem keypt voru með lánunum eru á hinn bóginn að mestu verðlaus enda hefur Seðlabanki Íslands leyst til sín um 90% af stofnfé sparisjóðsins.
Flestir þeirra sem tóku þátt í stofnfjáraukningunni voru heimamenn og var meðalaldur þeirra um 60 ár. Stofnfjáreigendur voru 150 og tóku nánast allir þátt í aukningunni
Í úttekt á málinu í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að upphaflega hafi lánin verið til fjögurra og hálfs árs og áttu að greiðast upp með arðgreiðslum frá sparisjóðnum. Samkvæmt bréfi til stofnfjáreigenda frá nóvember 2007, áttu stofnbréfin sjálf jafnframt að vera trygging fyrir láninu en í lánskilmálunum er hins vegar ákvæði um að hægt sé að krefjast aukinna trygginga.
Stofnfjáreigendur tóku ýmist erlend lán eða krónulán upp á 3,5 milljónir til að kaupa stofnfé. Í dag standa lánin í á bilinu 5-8 milljónum króna. Í tillögu að skilmálabreytingu sem Saga Capital sendi lántökum í vikunni er boðið upp á að skuldbreyta láninu í 15 ára lán með um það bil 50.000 króna greiðslum á mánuði. Í dag er fyrirhugaður fundur hjá stofnfjáreigendum og stjórnarformanni sjóðsins.