Fjarðarheiði hefur nú verið lokuð frá því á miðvikudagskvöld. Leiðin milli Austurlands og Norðurlands er líka lokuð. Vegagerðin bíður átekta með að opna leiðirnar, enda er ekkert ferðaveður á þessum slóðum. Farið er að bera á mjólkurskorti á Seyðisfirði.
Ófært hefur verið til Seyðisfjarðar frá því á miðvikudags kvöld. Snjóruðningsbíll fór upp á Fjarðarheiði í gærmorgun en sneri við á brúninni enda kolbrjálað veður á heiðinni. Enn er stórhríð og sér ekki út úr augum.
Það er orðið nokkuð langt síðan að Fjarðarheiðin hefur verið lokuð samfleytt í tvo sólarhringa, en það þótti ekki fréttnæmt fyrir nokkrum árum, að sögn kunnugra.
Norðurleiðin frá Austurlandi var illfær í gær vegna óveðurs og veðrið er enn verra í dag og alveg ófært. Stórhríð er á Jökuldalnum og eins í Skriðdal og á Héraði.
Magnús Jóhannsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar í Fellabæ, sagði að Möðrudalsöræfin séu ófær og ófært frá Skjöldólfsstöðum og norður úr og ekkert ferðaveður. Magnús sagði að það þýði ekkert að reyna að opna vegi á meðan ekki sé ferðaveður. Komi upp neyðarástand sé að sjálfsögðu reynt að bregðast við því.
Hann sagði að ekki sé búið að afskrifa að opna Fjarðarheiði í dag, en eftir því sem líði á daginn minnki líkurnar á að af því verði. Sömu sögu er að segja af Norðurleiðinni og taldi Magnús ólíklegt að hægt verði að opna hana í dag. Takist ekki að opna norður í dag verður það reynt í fyrramálið, þótt þá sé ekki reglulegur mokstursdagur.