Umfjöllun DV um Eið Smára Guðjohnsen laut eingöngu að fjármálum hans, en snerti á engan hátt persónuleg málefni hans, fjölskyldu eða eitthvað sem brýtur gegn friðhelgi einkalífsins. Að segja óeðlilegar fyrirgreiðslur Eiðs Smára hjá íslenskum bönkum einkamál hans er fjarstæðukennt. Þetta sagði verjandi ritstjóra DV í Héraðsdómi Reykjavíkur í hádeginu.
Eiður Smári fór í mál við blaðamann og ritstjóra DV vegna umfjöllunar um fjárhagsmálefni hans. Eiður Smári fór fram á fimm milljónir króna í bætur vegna þess miska sem hann hefur orðið fyrir.
Gunnar Ingi Jóhannsson, verjandi Reynis Traustasonar og Jón Trausta Reynissonar, ritstjóra DV, sagði fréttagildi umfjöllunarinnar ótvírætt. Meginástæða umfjöllunarinnar hafi verið sú lánafyrirgreiðsla sem Eiður Smári fékk hjá íslenskum bönkum til fjárfestinga. Lánin, upp á annan milljarð króna, hafi verið veitt með óeðlilegum hætti, til dæmis hafi persónulegur vinur Eiðs Smára haft milligöngu um þau. Þetta hafi verið dæmigert fyrir starfshætti gömlu bankanna. Almenningur hafi átti rétt á því að fá upplýsingar um málið.
Þá hafi umfjöllunin verið af sama toga og hjá öðrum sem hafi fengið lán hjá íslenskum bönkum og fjárfest erlendis. Hrun bankanna megi rekja til mála sem þessa. Að Eiður Smári hafi verið í hópi þeirra sem fengu óeðlilega fyrirgreiðslu hefur beina tengingu við þjóðmálaumræðuna.
Þá benti Gunnar á að ekkert hafi komið fram um að umfjöllunin hafi verið röng. Eiður Smári hafi ekki gefið skýrslu í málinu eða gert athugasemdir við umfjöllina sem slíka. Þá beri að hafa í huga að Eiður Smári er heimsþekktur og hafi það haft áhrif á að farið var í umfjöllunina.